"Ég vona að einhverjir muni sakna okkar," segir Stefán Pálsson, sagnfræðingur og einn stofnenda veftímaritsins Múrsins sem nú hefur lagt upp laupana.
Múrinn er eitt elsta pólitíska vefritið. Aðeins Vef-Þjóðviljinn er eldri. Að sögn Stefáns var blómatími þeirra rita, sem vöktu athygli og voru skrifin oft tekin upp af hefðbundnari fjölmiðlum, á árunum 2001 og 2002. Á þeim tíma var Björn Bjarnason eini pólitíkusinn sem skrifaði á netið. En með auknum uppgangi bloggsins og því að annar hver atvinnumaður í stjórnmálum tók upp á því að skrifa á netið tók að fjara undan veftímaritunum. Stefán heldur því þó fram að hann hafi ekki séð eitt einasta blogg sem er betra en sæmilegt veftímarit, sem lýtur ritstjórn, er byggt á samstarfi og ákveðinni stefnu. En pólitísku veftímaritin, sem þurfa að vera skrifuð af "ungum og gröðum" mönnum með sterkar pólitískar meiningar að sögn sagnfræðingsins, söfnuðust til feðra sinna misvirðulega.- jbg