Góðverk World class?

Var að hlusta á Dísu í World Class í morgun útvarpi Rásar 2, á henni að heyra virtist þetta nánast vera hugsjónastarf! 

Það er auðvitað rétt hjá henni að með aukinni hreyfingu eru þau að spara ríkinu fullt af peningum, hins vegar kostar það um 5.000 þúsund á mánuði að vera hjá þeim á ódýrasta taxta. Svo varla er um mikið hugsjónarstarf að ræða. Þau moka inn á nýársheitin um hver áramót, fólk sem dugar oft í 1-2 mánuði en heldur svo áfram að borga enda með samning til eins árs.

Svo sagði hún að það væru mjög fá tilfelli um að fólk nýtti sér ekki kortin. Trúir því einhver?  Bara með því að horfa í kringum sig, sér maður fjöldann allan af stuðningsaðilum við þessar stöðvar.  Hún sagði að allt væri gert til þess að halda í þessa einstaklinga.

Hvernig ætli sé staðið að því?

Í fyrra var ég einn af þessum stuðningsaðilum.  Byrjaði af krafti og hætti svo eftir mánuð.   Varð ekki var við að það hefði nokkuð verið gert til að halda í mig.

Ekki að þetta hafi verið nokkrum öðrum að kenna en mér. Hins vegar er ekki hægt að segja að það hafi verið gert eitthvað til að halda í mig.  Í raun hefðu þeir getað gert ýmislegt ef þetta væri raunverulega það sem WC vildi.  Þeir vita nákvæmlega hvenær og hvar hvert kort hefur verið notað, t.d. gætu þeir sent mér bréf eða tölvupóst, þar sem ég væri hvattur til þess að mæta eða boðið upp á eitthvað til að koma mér af stað aftur.

Hins vegar græða þessar stöðvar mest á mönnum eins og mér, sem byrja með krafti og detta svo út.  Peningar í áskrift og enginn kostnaður á móti.

Þeir mega eiga það að í þessu afskiptaleysi, þá gerðu þeir enga tilraun heldur til að halda í mig, þegar kortið mitt rann út.   Maður hefði haldið að eitthvað væri gert, t.d. að senda mér tilboð á sérkjörum ef ég héldi áfram.  Meira að segja þegar ég var stuðningsaðili í Nautillus, fékk ég slíkt boð.  Líklega þarf WC bara ekki á þessu að halda, það er nóg af fólki sem streymir á eigin vegum til þeirra og þeir græða meira á að taka bara þá sem mæta sjálfviljugir, frekar en að bjóða tryggum viðskiptavinum einhver sérkjör.  WC sendi mér þó jólakort fyrir ári síðan, þar sem ég gat nýtt upp í nýtt kort en því var ekki fyrir að dreifa í ár.

Annað sem er skrýtið hjá þeim er að maður getur ekki bætt áskrift aftan við aðra. Ef ég kaupi kort í dag til að tryggja að kortið mitt renni ekki út og ég komist ekki inn, þá er það ekki hægt nema að "geyma" kortið og standa svo í að virkja það sérstaklega. 

Væntanlega förum við fljótlega að heyra árlegar fréttir frá þessum stöðvum að allt sé að fyllast og þau séu að fara að hætta að taka fljótlega við nýjum viðskiptavinum.  Ég hef heyrt þennan söng undanfarin ár, samt hef ég aldrei heyrt um að neinum hafi verið neitað um kaupa kort. 

Auðvitað eru stöðvarnar samt frábærar, ég hef verið mjög ánægður með að æfa hjá þeim (þegar átakið er í gangi).   Hins vegar skal þarf ekki að halda það eina mínútu að þetta sé annað en púra buisness fram í fingurgóma hjá eigendunum og miðað við uppbygginguna er nokkuð upp úr þessu að hafa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég hef aldrei komið inn í World Class, en það sem ég hef út á þær líkamsræktarstöðvar að setja, sem ég hef komið inn í, er að það er nánast útilokað að fá leiðsögn í tækin. Ég hef verið í Hreyfingu, Frostaskjóli (man ekki nafnið) og í Mætti, sem er hætt.

Í Hreyfingu var innifalinn einn tími með einkaþjálfara, sem mér var illa við að nota til að kenna mér á tækin, en varð að gera það. Fólki er hent inn á gólf og það látið bjarga sér.

Líkamsræktargeirinn er iðnaður, með öllum sínum kostum og göllum. Þegar búið er að plata fólk til að kaupa árskort (eða styttri kort) þá heldur féflettingin áfram og það finnst mér verst.

Það er boðið upp á að kaupa tíma hjá einkaþjálfara, þar sem leiðsögn í sal er af skornum skammt, líklega til að narra fólk til að fá sér einkaþjálfara, sem er ekki ódýrt, átaksnámskeið, lokaða hópa, fitumælingu og hvað allt þetta heitir.

Ef boðið væri upp á heildarpakka með öllu framantöldu, mælingu, mataræði, eftirfylgni o.s.frv. þá væri ég sáttari við þetta háa verð. Nei, líkamsræktendur selja sig ekki ódýrt. 

Theódór Norðkvist, 2.1.2008 kl. 17:37

2 Smámynd: Tryggvi F. Elínarson

Innilega sammála! Skil nú bara ekkert í henni að tala í þeim dúr sem hún talaði. Lét þetta hljóma eins og þetta væri sjálfboðavinna og fólk mætti koma og fara endurgjaldslaust sem er hreint ekki raunin. Eins og þú bendir á eru þau greinilega að gera mjög góða 'business' úr þessu.

Og flestar þessar stöðvar gera einmitt nákvæmlega ekki neitt þegar fólk hefur ekki mætt í langan tíma. Einfaldlega vegna þess að þeir eru með áskrift að veskinu hjá fólki, þurfa ekki að gera baun. Þegar 12 mánuðir eru liðnir og korthafinn nuddar sárt ennið yfir því að hafa bara farið fyrstu tvo mánuðina kennir hann sjálfum sér um en ekki stöðinni (réttilega!)

Ef það væri alvöru hugsjónafólk á bak við stöðvarnar myndu þær vera mun iðnari við að lokka 'styrktaraðilana' inn til sín þegar þeir hafa ekki sést lengi.

Money makes the world go round....

Tryggvi F. Elínarson, 2.1.2008 kl. 17:39

3 Smámynd: Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir

Ég er ein af þeim sem spring alltaf á limminu en held samt áfram að '' styrkja '' líkamsræktarstöðina,en það er ekki WC. Ótrúlegt hvað maður lætur plata sig...

Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 3.1.2008 kl. 01:23

4 Smámynd: TómasHa

Þessar tölur eru alveg rosalegar, ég vissi að þetta væri hátt en 30% sem endast! Ótrúlegt. 

Eins og ég segi þá þekkir maður ótrúlega marga sem eru styrktarðailar. 

TómasHa, 3.1.2008 kl. 02:00

5 identicon

Sá verðskránna hjá WC á síðunni þeirra.

Árskort WC STGR.  kr 54.900  eða 158.900( þá innfalið baðstofa) 



  

 Árskortið sem ég keypti hjá Nautilus kostar kr 28.000 ( innifalin ótakmarkaður aðgangur í sund og allt sem sundlaug Kópavogs hefur að bjóða)

 En fólk hefur auðvitað val og kannski hentar ekki staðsetning ofl sumum.

Öðrum finnst ekkert að því að borga 160þ fyrir nokkra tíma á hlaupabretti.

Ath mánuður á stöð í Danmörku er ca 200kr DK( engar sundlaugar þó) 

Magnus Jonsson (IP-tala skráð) 3.1.2008 kl. 08:01

6 Smámynd: Snorri Bergz

Hreyfing hefur að sumu leyti staðið sig vel. Ég var að borga 3.500 á mánuði í bónusklúbbi. Nú hætta bónusklúbbarnir og við tekur WC kerfið. Og verðið er komið upp í um 7.000 kall á mánuði. Æ, ég veit ekki hvað ég geri, þegar nýja stöðin tekur við. En maður var ósáttur við, eftir að hafa verið þarna í mörg ár, að maður fékk engar upplýsingar um þessar breytingar, maður þurfti að fara á stúfana og spyrja, þótt afgreiðslufólkið virtist vita samasem ekkert.

Að vísu gat maður leitað til Kidda, sem bjargar svona. En maður vill ekki þurfa að gangast í þessu sjálfur. Maður á að fá amk email með tilkynningu um breyttar aðstæður, nýtt verð og svo framvegis. En svo var ekki.

Það er fyrst og fremst samskiptaleysið sem ég er ósáttastur við, en ekki það, að verðið skuli hækka. Og þeim var í lófa lagið að láta mig vita, enda með hið frábæra A8 vefumsjónarkerfi, sem hefði getað séð um að senda þetta út fyrir þá.

Ég skil ekki svona bissness. Kúnninn á að skipta meira máli en þetta.

Snorri Bergz, 3.1.2008 kl. 08:27

7 Smámynd: Oddgeir Einarsson

þurrkið tárin og kaupið ykkur staka tíma. Auðvitað eru WC menn í þessu til að græða. Alveg eins og viðskiptavinirnir kaupa sér kort í þeim tilgangi að græða betri heilsu.

Oddgeir Einarsson, 3.1.2008 kl. 10:21

8 Smámynd: TómasHa

Eru nokkrir að væla nema þá eigendur WC, um hversu mikið hugsjónarstarf þetta er?

TómasHa, 3.1.2008 kl. 18:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband