16.10.2007 | 09:24
Góð greining deiglunnar
Allar samsteypustjórnir eru grundvallaðar á trausti, persónulegu trausti milli þeirra sem þar ráða för. Samsteypustjórnir Sjálfstæðisflokksins hafa alla jafna gengið mjög vel. Hvort ástæðan fyrir því sé sú að sjálfstæðismenn séu ekki eins svikulir og aðrir stjórnmálamenn eða sú að þeir hitti alltaf á svo góða samstarfsmenn, skal ósagt látið. Hitt er hins vegar víst að samstarfsaðilar sjálfstæðismanna í samsteypustjórnum hafa getað gengið út frá því að sjálfstæðismenn ganga í takt í slíku samstarfi. Í þessu liggur styrkur Sjálfstæðisflokksins og þetta er snar þáttur í grunneðli hans.
Á einhverjum tímapunkti virðast borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa misst sjónar á þessu grundvallaratriði. Þeir létu óánægju sína og pirring með starfshætti og samskipti innan eigin flokks verða að vopni í höndum andstæðinga flokksins. Með því að láta í það skína að þeir fylgdu oddvita sínum ekki að málum, hentu þessir kjörnu fulltrúar sjálfstæðismanna pólitískri stöðu borgarstjórnarflokksins út í hafsauga og færðu andstæðingum flokksins völdin í borginni á silfurfati.
Borgarfulltrúi Framsóknarflokksins skaut meirihlutann niður með því að svíkja trúnað við fráfarandi borgarstjóra. Það var Björn Ingi sem tók í gikkinn en einungis eftir að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfðu hlaðið byssuna, rétt honum vopnið í hendur og stillt fyrir hann miðið. Vonandi hafa menn lært sína lexíu af þessu máli öllu, nógu dýru verði er hún keypt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.