20.9.2007 | 14:59
Sekur uns sakleysi sannað hjá tollinum
Kom heim í morgun og flaug í gegnum tollinn. Þetta er alltaf jafn skrýtið að fara í gegnum hliðið, manni líður alltaf eins og glæpamanni þótt maður hafi ekki neitt óhreint í pokahorninu. Ástæðan er líka sú að það er yfirleitt komið fram við mann eins og að maður sé að brjóta af sér. Þetta var staðfest í grein í Mogganum í morgun að þessi tilfinning er rétt. Tollararnir gera sjálkrafa ráð fyrir að maður sé að svíkja.
Það skal tekið fram að sá sem tók á móti okkur í morgun var mjög kurteis og spurði eingöngu um tíma sem við vorum úti og einnig hvað við hefðum verslað fyrir. Þetta hefur ekki alltaf verið svona og er nú svo komið að ég nenni helst ekki með betri myndavélina mína á milli landa, vegna þeirra umræðu sem ég lendi í nánast í hvert skipti sem ég fer með myndavélina.
Vélina keypti ég reyndar í Bandaríkjunum, en pantaði heim með pósti og greiddi öll gjöld af henni. Ég átti mínar nótur í þau ár sem hún var í ábyrgð og hef ekki séð ástæðu til þess að geyma nótur í 5 ár, löngu eftir að öll ábyrgð er dottin úr gildi. Enda hefur það verið nóg hingað til að fylla út miða sem staðfestir að ég fór með vélina úr landi.
Það gildir ekki lengur og hefur greinilega verið starfsregla í um 1 ár hjá þeim, því þrátt fyrir að hafa sýnt gulamiðan hefur mér verið sagt að hann skipti bara ekki neinu máli. Ég hafi getað smyglað henni áður. Þeir hafi rétt á að rukka mig um tolla og skatta í 5 ár!
Til hvers var þá verið að láta mig fylla út þessa gulu miða?
Að því er virðist eru þeir líka hættir að biðja fólk um að fylla þessa miða. Sem er eðlilegt í ljósi þess að þeir taka ekki sjálfir mark á þessum miðum sem þeir voru að biðja fólk um að fylla út.
það er alveg fáránleg nálgun að gera ráð fyrir að maður sé sekur þangað til sekt er sönnuð. Ég vorkenni þeim ekkert að sjá að myndavél sé gömul. Ég sé heldur ekkert að því að einn og einn komist inn í landið með skattlausa myndavél, ef við hin þurfum ekki að lenda í þriðju gráðu yfirheyrslu með þeim ruddaskap sem því fylgir frá Tollurunum út af velli að margra ára gamalli myndavél. Bara af því þeir geta gert það.
Ég vorkenni þeim ekkert að opna augun og sjá þegar fólk trylla heim með heilu ferðatöskurnar af dýrum vörum og svo hina sem eru bara að túristast og viljum að myndirnar úr ferðinni séu í lagi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:01 | Facebook
Athugasemdir
Einu ráðið við þessu er hreinlega að kaupa aldrei neitt eða að kaupa allt í Fríhöfninni. Annars má ekki kenna embættismönnum um heimskulegar reglur, sem væntanlega eru samdar í viðkomandi ráðuneyti.
Júlíus Valsson, 20.9.2007 kl. 16:25
Júlíus, það eina sem hjálpar þér er að ferða nánast farangurslaus. Það hjálpar þér lítið að versla í fríhöfninni ef þú þarft hvort sem er alltaf að ferðast með nótuna. Það hefur ekkert breyst, nema ákvörðun embættismanna á vellinum um þetta.
Það er alveg vonlaust að gert sé ráð fyrir að maður sér glæpamaður strax frá upphafi.
Þetta á auðvitað ekki við um alla eins og sá sem tók á móti okkur í morgun. Hins vegar hefur maður lent í virkilegu böggi þegar maður hefur verið að ferðast með myndavélina.
TómasHa, 20.9.2007 kl. 17:20
Ég er hjartanlega sammála að það er fáránlegt að almenna nálgunin á íslenska ferðalanga í heimkomu sé að þeir hafi eitthvað að fela.
Hins vegar verðum við að gera okkur grein fyrir því að það er bara staðreynd að flestar munaðarvörur, t.d. raftæki, fatnaður og ýmislegt fleira, er töluvert ódýrara á erlendri grundu en á Íslandi sökum ósanngjarnra tolla og skattlagningar, og flutningskostnaðar.
Starfsmenn tollsins eru eflaust reglulega minntir á þetta og þekkja vel tilhneigingu Íslendinga til að gera magninnkaup á ferðum erlendis. Því er mjög eðlilegt að þeir séu grimmir í eftirliti á að fólk fylgi lögum landsins, jafnvel þó þeim sjálfum þættu þau ósanngjörn og asnaleg.
En dæmið sem þú nefnir um að gulu miðarnir séu ekki lengur gildir og þú ert stimplaður sem glæpamaður er auðvitað aumkunnarverð framkoma af hendi tollvarða.
Það er líka frekar pirrandi að vera ungur karlmaður og vera stoppaður í hvert einasta skipti sem maður fer í gegnum tollinn því maður passar í prófílinn sem líklegastir eru til að vera smygla e-u "sterkara" en myndavél.
Kristjánsson, 20.9.2007 kl. 18:56
Það vaæri kannski ráð fyrir ráðamenn að beita sér fyrir því að verð lækki hér á landi þá þyrftu aumingja tollararnir að vera að angra okkur.
María Kristjánsdóttir, 21.9.2007 kl. 00:09
Þeta var nú gert af sljóleika átti að standa auðvitað: þá þyrftu aumingja tollararnir ekki að vera angra okkur.
María Kristjánsdóttir, 21.9.2007 kl. 00:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.